Keyrði út í Ljótapoll

Landhelgisgæslan.
Landhelgisgæslan.

Landhelgisgæslan flaug tvö sjúkraflug í gærkvöldi. Um klukkan hálf ellefu sótti þyrla Landhelgisgæslunnar veikan mann um borð í togarann Þuríði Halldórsdóttur. Hann var ekki í lífshættu, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.

Fjórar björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út rétt um miðnætti þegar bíl féll niður háan gígvegg og endaði í Ljótapolli á Landmannaafrétti. Fjórar manneskjur voru í bílnum og fljótlega tókst að koma þremur þeirra upp úr gígnum og í skála. Fjórði maðurinn var fastur í bílnum. Ekki þótti ráðlegt að hreyfa hann vegna mögulegra hálsáverka og héldu því vegfarendur höfði hans upp úr vatninu þar til þyrla landhelgisgæslunnar TF LÍF kom á staðinn með lækni og bráðaliða.

Þegar búið var að ná manninum úr bílnum var afráðið var að þyrlan héldi í Landmannalaugar til að kanna ástand farþeganna sem komnir voru í skála enda fall bílsins niður í gíginn hátt, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu. Ökumaðurinn var fluttur með sjúkraflugi á Landspítalann, en reyndist ekki alvarlega slasaður, samkvæmt upplýsingum frá slysadeild spítalans í Fossvogi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert