Forsetaembættið tekur í notkun hybrid-bíl

Lexus LS600h, sömu gerðar og bíllinn sem forsetaembættið fær.
Lexus LS600h, sömu gerðar og bíllinn sem forsetaembættið fær.

Embætti forseta Íslands tekur í dag við nýrri bifreið sem leysir af hólmi bifreið sem embættið hefur notað undanfarin 13 ár. Hin nýja bifreið er af Lexus gerð og segir embættið að hún sé búin háþróuðu hybrid-kerfi sem samanstandi af rafmótor og bensínvél. Sé forseti Íslands fyrsti þjóðhöfðinginn í Evrópu sem tekur í notkun umhverfisvæna bifreið þessarar tegundar.

Bíllinn er þannig gerður, að unnt er að aka honum á rafmótor einum allt að 60-70 km hraða á klst. Þá sé bíllinn hljóðlaus og algerlega laus við útblástur og mengi þar með ekki umhverfi sitt.

Forsetaembættið segir, að þegar umhverfisvæn bifreið sé nú tekin í notkun sé það í samræmi við þá stefnu, sem mótuð hafi verið að leggja í vaxandi mæli áherslu á umhverfisvæn ökutæki sem lið í framlagi almennings og stjórnvalda í baráttunni gegn loftslagsbreytingum sem ógna efnahagslífi og lífsskilyrðum jarðarbúa ef ekki verður gripið til fjölþættra aðgerða.

Forstjóri Toyota í Evrópu, Tadashi Arashima, mun afhenda forseta Íslands bifreiðina á Bessastöðum í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert