VG: Kvótakerfið gjaldþrota

Atli Gíslason, fulltrúi VG í sjávarútvegsnefnd.
Atli Gíslason, fulltrúi VG í sjávarútvegsnefnd.

Atli Gíslason, alþingismaður og fulltrúi Vinstri-grænna í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, segir mjög sterk rök mæla gegn því að kvótakerfið geti fullnægt meginmarkmiðum sínum að efla fiskistofna við landið.

„Okkur sýnist kvótakerfið vera gjaldþrota, það hefur engan veginn skilað meginmarkmiðum sínum um að efla þorskinn við landið og styrkja sjávarbyggðir,“ segir Atli

Kerfið ekki vistvænt til að byrja með

Að mati flokksmanna Vinstri-grænna er kerfið til að byrja með ekki vistvænt og hafa þeir efasemdir um að ákvörðun um 130 þúsund tonna aflamark tryggi viðgang þorskstofnsins.

„Kerfið er ekki vistvænt og við höfum stórar efasemdir að ákvörðuð um 130 þúsund tonna aflamark á þorski tryggi viðgang stofnsins. Ákvörðunin er tæpast framkvæmanleg einkum gagnvart heimildum í ýsu og meðafla í þorski, sem óhjákvæmilega fylgir ýsuveiðum. Það blasir við að okkar mati að brottkast og annað svindl muni stóraukast og að sjávarbyggðir, einkum þær smærri, munu lenda í miklu hremmingum,“ segir Atli og bætir því við að ákvörðunin leiði einnig til mjög vaxandi einokunar í útgerð og fiskvinnslu.

„Það verður að taka upp gerbreytt og vistvænt fiskveiðikerfi þar sem friða á alla grunnslóð fyrir togurum, stórbæta rannsóknar á fiskstofnum og hefja vísindaveiðar í smærri byggðum undir eftirliti Hafrannsóknarstofnunnar, þar sem allur afli kemur í land, því það skortir þennan vísindalega grunn.“

Atli segir ljóst að síðastliðið 21 ár hafi nýliðun í þorski brugðist - allan þann tíma sem kvótakerfið hefur verið við lýði.

Verður að tilkynna hliðaraðgerðir strax

Að sögn Atla eru Vinstri-græn með tillögur að hliðaraðgerðum, svo sem að efla byggðastofnun, sérstakar aðgerðir gagnvart konum og efla sjávarpláss með því að færa hafrannsóknir til þeirra. Það sé ábyrgðaleysi að breyta kerfinu án úrræða og án þess að tilkynna á hliðarráðstafanir strax.

„Viðgerðir á húsum og vegum gagnast ekki konum. Það verður að efla símenntun, sem konur notfæra sé í miklum magni og að efla þjónustu við eldri borgara og skólana. Efla þarf tekjustofna sveitafélaga og veita sérstökum fjárframlög til þeirra sveitafélögum sem verst standa.“

Að lokum segir Atli að það verði „að tryggja frumkvöðlum á landsbyggðinni þolinmótt fjármagn til langs tíma á heiðarlegum vöxtum.“ Það ætti að vera hluti af hliðarráðstöfunum, því margar hugmyndir sem fari ekki af stað vegna okurvaxta. Að mati Atla sinna einokunarbankarnir ekki landsbyggðinni og því þarf að efla byggðarstofnun og auka verulega fjölbreytni atvinnu í sjávarbyggðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert