ASÍ: Verðhækkanir á matvöru óviðunandi

Matarkarfan er dýr, þrátt fyrir lækkun virðisaukaskatts og vörugjalda.
Matarkarfan er dýr, þrátt fyrir lækkun virðisaukaskatts og vörugjalda. mbl/Eyþór Árnason

Verðlagseftirlit ASÍ hefur að undanförnu staðið fyrir viðamiklum verðmælingum í verslunum til þess að fylgjast með því hvernig lækkanir á virðisaukaskatti og vörugjöldum þann 1. mars á þessu ári skila sér til neytenda.

Helstu niðurstöður eru þær að verð hækkar mest í verslunum Krónunnar eða um 4,6% en lækkar lítillega í Nettó eða um 0,2%. Það vekur athygli að verð skuli hækka í þremur verslunum og einungis lækka lítillega í einni verslun þegar það er haft í huga að áhrif af lækkun vörugjalda hefði átt að koma fram á umræddu tímabili og einnig hefur gengi íslensku krónunnar styrkst að undanförnu, segir í fréttatilkynningu ASÍ.

Í verðmælingunni kom í ljós mikill munur milli einstakra vöruflokka innan verslana og ekki síður milli verslana. Mest er hækkunin á vöruflokknum gosi, söfum og vatni í Bónus og Krónunni 13,4% og 19,9% og á fiski í Bónus 13,0%. Mest lækkar verð á fiski í Nettó eða um 3,9%.

Verðmælingar verðlagseftirlits ASÍ voru gerðar í verslunarkeðjunum um land allt og stóðu yfir í um vikutíma í senn í mars og maí. Einungis var lagt mat á verðbreytingar innan hverrar verslanakeðju fyrir sig. Við útreikninga á verðbreytingum verslana er reiknuð út vegin breyting á verði vörukörfu í hverri verslunarkeðju. Grunnur að vog vörukörfunnar er byggður á þeirri vog sem Hagstofa Íslands notar til útreiknings á vísitölu neysluverðs.

Niðurstaðan óviðunandi fyrir neytendur

Þegar niðurstöður verðmælinga ASÍ eru skoðaðar frá því í desember 2006 til maí 2007 kemur í ljós að verð í lágvöruverslunum hefur lækkað um 4,2% til 6,7%.

Samkvæmt mati Hagstofunnar átti lækkun á virðisaukaskatti að lækka verð á matar- og drykkjarvörum um 7,4% og lækkun vörugjalda að skila 1,3% lækkun til viðbótar. Að auki styrktist gengi íslensku krónunnar um 6% frá 15. desember 2006 til 15. maí 2007. Að mati verðlagseftirlits ASÍ hefði verð í lágvöruverslunum því átt að lækka umtalsvert meira en raunin varð og segir eftirlitið niðurstöðurnar vera óviðunandi fyrir neytendur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert