Gröfur og grjót taka á móti skemmtiskipagestum

Fjögur skemmtiferðaskip liggja nú við Reykjavíkurhöfn með hátt á fjórða þúsund farþega innanborðs. Stærst skipana er Masdaam, sem 220 metra langt og rúmar 1700 farþega.

Umhverfið er ekki hlýlegt sem tekur á móti gestum þriggja skemmtiferðaskipa, sem liggja við Sunda- og Skarfabakka. Útsýnið frá landganginum er yfir verksmiðjusvæði og byggingaframkvæmdir Eimskipa og Hampiðjunnar. Þá er öryggiseftirlit við skipin í litlum vinnuskúrum við vígalegar girðingar.

Við hliðina á mannvirkjum fyrirtækjanna byggja Faxaflóahafnir móttökumiðstöð fyrir gesti skipanna í því skyni að bæta aðstöðuna. Engar almenningssamgöngur ganga um hafnarsvæðið, en ferðaskrifstofur útvega skutlur sem ganga reglulega niður í miðbæ borgarinnar, samkvæmt upplýsingum frá hafnaryfirvöldum.

Gestirnir létu það þó ekki á sig fá. Þau sögðu framkvæmdirnar vera til marks um vöxtinn í íslensku samfélagi og lýstu ánægju sinni með það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert