Hundurinn Lúkas á lífi

Um hundrað manns tóku þátt í kertavöku á Akureyri til …
Um hundrað manns tóku þátt í kertavöku á Akureyri til minningar um hundinn Lúkas, sem nú er sagður á lífi mbl.is/Skapti

Tilkynnt var í dag til lögreglunnar á Akureyri að Lúkas, um ársgamall hundur af kyninu Chinese Crested hefði sést fyrir ofan bæinn á lífi. Að sögn Gunnars Jóhannssonar yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar á Akureyri var haft samband við eigandann sem fór á staðinn og mun vera fullviss um að þar sé hundurinn á ferð. Lúkas er sagður styggur, enda hefur hans verið saknað síðan í maílok, og hefur enn ekki tekist að ná honum.

Í tölvupósti sem gekk manna á milli á netinu í júní sagði að sést hefði til ungra manna með hundinn á bíladögum á Akureyri helgina 15. til 17. júní sl. Þá sagði að þeir hefðu drepið hundinn á hrottalegan hátt með því að setja hann í íþróttatösku og sparka á milli sín. Drápið var kært til lögreglu, en samkvæmt upplýsingum frá rannsóknardeild er rannsóknin nú í biðstöðu.

Málið vakti mikla athygli og óhug og var mikið skrifað um hið meinta hundsdráp á spjallsíðum og bloggum. A.m.k. einn meintra gerenda var nafngreindur á netinu og bárust honum alvarlegar hótanir, m.a. líflátshótanir í kjölfarið. Kertavökur voru haldnar á Akureyri, í Hveragerði og Reykjavík og tóku hundruð manna þátt í þeim.

Að sögn lögreglu er málið nú í raun í höndum eigandans, sem er sögð hafa ætlað að leita sér aðstoðar við að koma hundinum til síns heima.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert