Almannavarnir í viðbragðsstöðu vegna hugsanlegra eldsumbrota við Upptyppinga

Vatnajökull.
Vatnajökull. mbl.is/RAX

Lögreglustjórnar og yfirlögregluþjónar í umdæmum sýslumannanna á Húsavík og Seyðisfirði funduðu í gær ásamt deildarstjóra almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra til að samræma aðgerðir og undirbúning vegna hugsanlegra eldsumbrota norður af Vatnajökli við Upptyppinga, u.þ.b. 15 km. suður af Herðubreiðarlindum og um 16 km austur af Dreka.

Þar hefur verið viðvarandi skjálftahrina frá lokum febrúar. Skjálftavirknin hefur aðallega verið á 15-20 kílómetra dýpi.

Fram kemur í tilkynningu frá Almannavörnum að um miðjan júní síðastliðinn hafi verið haldinn fundur með starfsmönnum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og vísindamannaráði almannavarna vegna viðvarandi jarðskjálfta við Upptyppinga. Þá var ákveðið að fylgjast nánið með virkninni, því talið er að með áframhaldandi virkni aukist líkur á eldgosi.

Þar sem virknin hefur aukist talsvert síðan í júní var ákveðið að boða til fundar í gær sem fyrr segir. Fundarmenn ákváðu að hefja undirbúning viðbragða við hugsanlegum eldsumbrotum, t.d. hvernig staðið yrði að lokunum vega auk þess að verkaskipting milli umdæmanna og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra var ákveðin. Áfram verður fylgst náið með virkninni og hvort ástæða er til frekari aðgerða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert