Heimilisleg menningarhátíð

Menningarnótt í Reykjavík er fyrir löngu búin að festa sig í sessi sem hátíð borgarbúa og nærsveitunga, en þann 18. þessa mánaðar verður hún sett með formlegum hætti í 12. sinn. Það var mjög heimilisleg stemning þegar dagskráin var kynnt fjölmiðlum í dag, en hún verður nú sem fyrr afar fjölbreytt og af nógu verður að taka.

Gestasveitarfélag Menningarnætur í ár er Þórshöfn í Færeyjum. Þaðan kemur fjöldi listamanna sem leika og syngja fyrir þá sem leggja leið sína í Tjarnarsal Ráðhússins frá kl. 14-22.

Auk þeirra munu fleiri erlendir listamenn taka þátt í hátíðinni ár. Frá Bretlandi kemur t.d. indversk ættaði hópurinn Back 2 Back sem mun sýna Íslendingum þjóðlegan Bhangra dans í bland við fleiri dansa.

Margt verður í gangi fyrir börnin og þá býður Landsbankinn, í samstarfi við Rás 2, upp á tónleika á Miklatúni sem hefjast kl. 16 og standa til kl. 22. Þar munu margir helstu tónlistarmenn þjóðarinnar stíga á stokk. Viðburðirnir eru á fjórða hundrað talsins og hægt verður að kynna sér þá nánar á vefsíðu menningarnætur frá föstudeginum 10. ágúst og í dagskrárriti sem dreift verður með Blaðinu fimmtudaginn 16. ágúst. Dagskráin er einnig gefin út á ensku með Grapevine og er birt á vefsvæðinu www.visitreykjavik.is.

Hátíðin verður sett formlega kl. 13 þann 18. ágúst í Norræna húsinu með ávarpi borgarstjóra og henni lýkur kl. 23 með glæsilegri flugeldasýningu í boði Orkuveitu Reykjavíkur sem framkvæmd verður af Hjálparsveit Skáta og Landhelgisgæslu Íslands. Flugeldunum verður, líkt og í fyrra, skotið úr varðskipinu Ægi sem mun liggja við akkeri rétt utan við Sæbraut.

Við upphaf fundarins undirrituðu þeir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri og Haukur Leósson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, samstarfssamning þar sem fram kemur að Orkuveitan muni bjóða borgarbúum upp á flugeldasýninguna, sem slær botninn úr hátíðardagskránni, næstu þrjú árin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert