Íslenska nammi-útrásin hafin

Trítlar.
Trítlar.
Eftir Atla Fannar Bjarkason - atli@bladid.net
Trítlar eru nú seldir í Danmörku, en Danir hafa sýnt íslenskri blöndu af lakkrís og súkkulaði mikinn áhuga. „Danirnir eru greinilega forvitnir um súkkulaði- og lakkrísblönduna okkar og vilja prófa hana," segir Gunnar B. Sigurgeirsson, markaðsstjóri Nóa Síríuss.

Fyrirtækið hóf nýlega tilraunaútflutning á sælgæti sem inniheldur súkkulaði og lakkrís til Danmerkur. Sú blanda þekkist varla erlendis og ferðamenn sem koma til landsins furða sig oft á þessari skrýtnu íslensku blöndu.

Andri Freyr Viðarsson, útvarpsmaður á RVK FM, er búsettur í Danmörku. Hann rakst nýlega á íslenska Trítla í danskri verslun og sagði í morgunþættinum Capone að hann hefði himinlifandi keypt nokkra poka. „Sælgætið er selt í verslunum sem heita Irma, sem er dönsk keðja í dýrari kantinum," segir Gunnar.

„Þeir eru að taka vörur af okkur sem blanda saman súkkulaði og lakkrís. Það er það sem hefur vakið athygli þeirra. Okkur finnst voða spennandi að sjá hvernig aðrir taka í vörurnar okkar. Sérstaklega svona rótgrónar vörur eins og súkkulaði og lakkrís. Ég er búinn að fá töluvert margar fyrirspurnir frá fólki í Skandinavíu, sem er að spyrja út í þessa hefð - að blanda saman súkkulaði og lakkrís - og því finnst þetta spennandi. Ég er ekki að segja að öllum finnist þetta gott, en þetta vekur áhuga."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert