Áhugi fyrir eignum Miðfells

Miðfell.
Miðfell. mynd/bb.is

Þó nokkrar fyrirspurnir hafa borist Fasteignasölu Vestfjarða um eignir rækjuverksmiðjunnar Miðfells ehf. á Ísafirði, sem lýst var gjaldþrota í sumar. Í verksmiðjunni er ein fullkomnasta vinnslulína hér á landi, samkvæmt frétt Bæjarins besta.

Að sögn Tryggva Guðmundssonar hjá Fasteignasölu Vestfjarða hafa aðilar verið að falast eftir tækjum og tólum úr verksmiðjunni. Einnig hafa borist fyrirspurnir um að kaupa húsið með öllum tækjum. Hann segir fyrsta kostinn vera að selja eignir þrotabúsins í heilu lagi. Sölumál skýrast jafnvel í þessari viku eða þeirri næstu.

Miðfell var úrskurðað gjaldþrota í byrjun júlí. Langvarandi rekstrarerfiðleikar hafa hrjáð rækjuiðnaðinn á Íslandi og kom gjaldþrot Miðfells fáum á óvart. Viku fyrir gjaldþrotabeiðnina tilkynntu stjórnendur Miðfells um ótímabundna vinnslustöðvun og var þá nokkuð ljóst í hvað stefndi, samkvæmt frétt Bæjarins besta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert