Reynt að stemma stigu við sniffi unglinga í Árborg

Starfsmenn forvarnarsviðs hjá Sveitarfélaginu Árborg og hjúkrunarfræðingar á heilsugæslustöð Selfoss hafa að undanförnu sent frá sér tilkynningu þar sem vakin er athygli á skaðsemi þess að sniffa eiturefni. Anný Ingimarsdóttir, verkefnisstjóri félagslegrar ráðgjafar, segir við Sunnlenska að margt bendi til þess að unglingar á Selfossi séu að fikta við að sniffa.

„Starfsmaður sveitarfélagsins fann nýverið, tvo daga í röð, tóma kveikjaragasbrúsa á svæðum þar sem unglingar koma gjarnan saman. Þess vegna var ákveðið að hleypa af stað átaki gegn þessari stórhættulegu iðju áður en einhver færi sér að voða," segir Anný við Sunnlenska.

Samkvæmt lögum er óheimilt að selja fólki yngra en 18 ára kveikjaragas og á það að vera falið í verslunum, líkt og tóbak. „Starfsfólk sveitarfélagsins athugaði hvort þessum reglum væri framfylgt í bensínstöðum og verslunum á svæðinu. Á flestum stöðum var rétt að þessu staðið. Afgreiðslufólk tók öllum ábendingum mjög vel og vildi gera hvað það gat til þess að stemma stigu við þessu fikti," segir Anný.

Hún hvetur foreldra ennfremur til að vera á varðbergi. Jafnframt eru þeir sem finna sniffáhöld, sem og önnur neyslutól til vímuefnanotkunar, beðnir um að koma þeim í hendur lögreglu. „Fólk gerir sér oft á tíðum ekki grein fyrir skaðsemi þess að sniffa. En raunin er að við aðeins eitt sniff af gasi getur viðkomandi orðið heiladauður - til æviloka." Suðurland.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert