Vill auka frjálsræði í landbúnaði

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.
Eftir Þórð Snæ Júlíusson - thordur@bladid.net
Einar K. Guðfinnsson landbúnaðarráðherra er að láta skoða ákveðna þætti búvörulaga með það að leiðarljósi að einfalda landbúnaðarkerfið og auka frjálsræði innan þess. Þeir þættir laganna sem eru til skoðunar lúta meðal annars að verðtilfærslum og verðmiðlunum í kerfinu. Einar segir þessar aðgerðir í takt við það sem sett hafi verið fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

„Þar er hvatt til þess að við reynum að gera kerfið einfaldara og að auka þar frelsi. Við höfum á undanförnum vikum verið að fara yfir búvörulögin og ýmsa þætti þeirra. Það hefur meðal annars verið farið yfir þætti sem snúa að verðmiðlun og verðtilfærslum innan landbúnaðarkerfisins sem að mínu mati þurfa einföldunar við. Það gæti þá mögulega haft áhrif á verðlagningu búvara í frjálsræðisátt. Þetta er gert til að einfalda kerfið og gera verðlagningu gegnsærri."

Fyrirtæki í mjólkuriðnaði hafa verið undanþegin samkeppnislögum samkvæmt ákvæði í búvörulögum sem samþykkt var árið 2004. Fyrir tæpu ári úrskurðaði Samkeppniseftirlitið að þessi óskilyrta undanþága væri á engan hátt eðlileg og að hún hefði alvarlegar samkeppnishömlur í för með sér. Eftirlitið hvatti því til þess að búvörulögunum yrði breytt þannig að þetta ákvæði yrði tekið út. Guðni Ágústsson, þáverandi landbúnaðarráðherra, neitaði þá að beita sér fyrir breytingunum og sagði Samkeppnisyfirvöld hafa sett upp pólitísk gleraugu. Einar segist heldur ekki hafa nein sérstök áform um að fella ákvæðið úr gildi.

Nánar er fjallað um þetta í Blaðinu í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert