Um 120 útköll hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt

Lögreglumenn á gangi í miðborginni.
Lögreglumenn á gangi í miðborginni. mbl.is/Júlíus

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór í um 120 útköll frá kl. 23 í gærkvöldi til kl. sjö í morgun. Þrettán gista nú fangageymslur lögreglunnar eftir nóttina en um 40 manns voru handteknir vegna hinna ýmsu brota, þar af 25 fyrir að brjóta gegn lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar. Þeir höfðu m.a. kastað af sér vatni á almannafæri, brotið flöskur, unnið skemmdarverk, slegið til aðra svo nokkur dæmi séu tekin.

Allir, utan tveggja, sem gerðust brotlegir við lögreglusamþykktina gengust undir sátt og munu greiða sekt vegna athæfisins. Tveir voru hinsvegar færðir í fangageymslur lögreglu.

Haft var samband við lögreglu í nótt og hún beðin um að aðstoða við að rýma unglingapartí sem hafði farið úr böndunum í Hafnarfirði í nótt. Áhyggjufullir nágrannar höfðu samband við lögreglu, en á bilinu 40 - 50 ungmenni voru þar samankomin. Að sögn lögreglu voru foreldrar húsráðanda erlendis. Vel gekk að rýma húsið en það tók hinsvegar talsverðan tíma. Þá voru skemmdir unnar á heimilinu.

Þá var 100 manna unglingapartí leyst upp í Nauthólsvík í nótt. Lögreglan leysti upp teitið um kl. 01:30 í nótt, en þar voru unglingar samankomnir við drykkju. Að sögn lögreglu gekk þetta fyrir sig án átaka.

Þá komu nokkur líkamsárásarmál á borð lögreglu í nótt vítt og breitt um borgina. Ekkert þeirra telst vera mjög alvarlegt. Þrír veittust að einum á Stórhöfða í Reykjavík. Maðurinn var blár og marinn eftir árásina. Hann sagðist vita hverjir voru að verki en sagðist ekki ætla að kæra árásina.

Fimm veittust að einum manni við Vínbarinn í nótt. Ekki er vitað hverjir voru að verki. Maðurinn var fluttur á slysadeild.

Þá kom til átaka milli þriggja systra í nótt. Að sögn lögreglu slettist upp á gleðskap sem systurnar voru í ásamt sambýlismönnum. Ein af systrunum hafði sig í mikið í frammi og réðst á systur sínar þannig á að þeim sást, m.a. í andliti. Lögreglan handtók konuna sem gistir nú fangageymslur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert