Skákliði Salaskóla boðið til Namibíu

Þróunarsamvinnustofnun Íslands og Kópavogsbær hafa ákveðið að bjóða heimsmeistaraliði Salaskóla í skólaskák, ásamt tveimur fararstjórum, til Namibíu.

Þróunarsamvinnustofnun hefur í samstarfi við Skáksamband Íslands og Hrókinn staðið fyrir skákverkefni meðal grunnskólabarna í Namibíu síðustu þrjú árin ásamt því að styðja við bakið á namibíska skáksambandinu og þjálfa landslið Namibíu í skák. Skákverkefninu lýkur á næstunni og því þótti við hæfi að bjóða nýju heimsmeisturunum í skólaskák frá Salaskóla í heimsókn til Namibíu, samkvæmt upplýsingum frá Þróunarsamvinnustofnun.

Í ferðinni gefst íslensku sveitinni kostur á því að tefla við aðra grunnskólanemendur og taka þátt í tveimur meistaramótum ungmenna í Namibíu. Annars vegar er um að ræða keppni skólaliða og hins vegar einstaklingskeppni en bæði mótin eru haldin í Eros grunnskólanum í höfuðborginni Windhoek.

Skáksveit Salaskóla ogi vann í sumar heimsmeistaratitil í flokki 14 ára og yngri á alþjóðlegu móti grunnskólaliða sem haldið var í Tékklandi. Í sigurliðinu voru Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, Petrekur Maron Magnússon, Páll Andrason, Guðmundur Kristinn Lee og Birkir Karl Sigurðsson, öll á aldrinum 11-14 ára. Þessi hópur fer til Namibíu í vikunni ásamt þjálfurum og fararstjórum liðsins, Hrannari Baldurssyni og Tómasi Rasmus.

Ferðin hefst næstkomandi miðvikudag og lýkur 21. september.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert