Enn eitt heimsmetið fellur í aðrennslisgöngum Jökulárveitu

Frá aðrennslisgöngunum í Jökulárveitu.
Frá aðrennslisgöngunum í Jökulárveitu. mbl.is/Steinunn Ásmundsdóttir

Áhöfnin Bor 2 setti heimsmet í afköstum í nýliðinni viku í aðrennslisgöngum Jökulárveitu. Hún bætti fyrra metið, sem var frá framkvæmdum við fráveitukerfi Chicago í Bandaríkjunum, um 57 metra. Þetta kemur fram á vef Landsvirkjunar um Kárahnjúkavirkjun.

Bor 2 hefur gengið sérlega vel í aðrennslisgöngum Jökulsárveitu og slegið þar hvert metið á fætur öðrum. Þannig náði borinn metafköstum í heiminum 23. ágúst 2007 þegar hann fór 115,6 metra á einum sólarhring.

Um miðjan ágúst, í 33. viku 2007, gerði bor 2 atlögu að gildandi heimsmeti í afköstum bors af þessari stærð á einni viku. Þá boraði hann 364 metra í Jökulsárveitu og vantaði einungis 8 metra upp á að slá metið frá Chicago.

Núna í 37. viku 2007 féll bandaríska metið hins vegar og það svo um munaði. Bor 2 fór 428,8 metra og bætti þannig heimsmetið um 57 metra. Þetta eru að sjálfsögðu gríðarleg afköst, yfir 70 metrar á sólarhring að jafnaði (borinn var í gangi í sex sólarhringa af sjö í síðustu viku), að því er fram kemur á vef Kárahnjúkavirkjunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert