Spurning hvort einkaaðilar eigi að koma að rekstri fangelsa

Úr klefa í fangelsinu við Kvíabryggju.
Úr klefa í fangelsinu við Kvíabryggju. mbl.i/Golli

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði í dag að ekki sé óeðlilegt að þeirri spurningu sé velt velt fyrir sér, hvort stofna eigi með samningi til samstarfs við einkaaðila um byggingu og jafnvel rekstur fangelsa.

Þetta kom fram í ávarpi, sem Björn flutti þegar stækkun fangelsisins á Kvíabryggju var tekin í notkun en föngum í fangelsinu hefur verið fjölgað úr 14 í 22. Í tilefni af því var haldið málþing um opin fangelsi á Kvíabryggju í dag á vegum Fangelsismálastofnunar.

Björn sagði þar, að hann teldi eðlilegt, að skoðað sé til hlítar, hvort ríkið eigi sjálft að standa að byggingu og rekstri hins nýja fangelsis. Á sama tíma og sú stefna hafir verið mótuð, sem verið sé að hrinda í framkvæmd á Kvíabryggju, að föngum sé treyst meira en áður með sérstökum samningi fyrir rekstri og starfsemi fangelsisins, sé ekki óeðlilegt, að þeirri spurningu sé velt fyrir sér, hvort stofna eigi með samningi til samstarfs við einkaaðila um byggingu og jafnvel rekstur fangelsa.

„Löng og góð reynsla er af samvinnu við Vernd, sem rekur eins og kunnugt er áfangaheimili í Reykjavík og hefur verið unnið að því að lengja vistunartíma fanga þar. Þá hefur fangelsismálastofnun einnig átt samstarf við aðra einkaaðila, sem hafa aðstöðu til að auðvelda föngum aðlögun að samfélaginu. Á árinu 2006 voru til dæmis 49 fangar sendir í meðferð á stofnanir en þeir voru 15 árið 2003.

Miðað við hinn mikla áhuga margra í þjóðfélaginu á málefnum og velferð fanga, kæmi ekki á óvart, að unnt yrði að virkja einkaframtak til enn meira samstarfs um verkefni á vegum fangelsismálastofnunar," sagði Björn Bjarnason.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert