Hitti fulltrúa tamílsku Tígranna án heimildar

Bjarni Vestmann, sendifulltrúi íslenska utanríkisráðuneytisins, með S. P. Thamilselvan en …
Bjarni Vestmann, sendifulltrúi íslenska utanríkisráðuneytisins, með S. P. Thamilselvan en myndin er tekin af heimasíðu tamílsku Tígranna. AP
Eftir Davíð Loga Sigurðsson Bjarni Vestmann, sendifulltrúi í utanríkisráðuneytinu, heldur heim frá Sri Lanka síðdegis í dag en stjórnvöld í landinu höfðu krafist þess af íslenskum yfirvöldum að hann yrði kallaður heim í kjölfar fundar sem Bjarni átti með Tamilselvan, háttsettum yfirmanni frelsissamtaka Tamíla, tígranna svonefndu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra átti langt símtal við starfsbróður sinn á Sri Lanka í gærkvöldi þar sem hún útskýrði fyrir honum að mistök hefðu verið gerð.

Gréta Gunnarsdóttir, sviðstjóri í utanríkisráðuneytinu, segir að Bjarni hafi verið á ferð á Sri Lanka til að kynna sér starfsemi Íslendinganna sem starfa hjá norrænu eftirlitssveitinni (SLMM) en sú sveit fylgist með því að skilmálum vopnahlés milli stjórnvalda og Tamíl-tígranna sé fylgt.

„Ástæðan var sú að það kom til greina að tilnefna hann í stöðu hjá norrænu eftirlitssveitunum," sagði Gréta. „Síðan kom í ljós í gær að hann hafði hitt þarna háttsettan yfirmann frelsissamtaka tamíla. Þetta er eitthvað sem hann gerir alveg án heimildar frá ráðuneytinu. Það var ekki tilgangurinn að hann hitti fulltrúa tamíla eða stjórnvalda á meðan á dvöl hans stæði."

Yfirvöld í Colombo brugðust sem fyrr segir afar hart við fréttum af fundi Bjarna með Tamilselvan í Kilinochi í norðurhluta Sri Lanka. Mun utanríkisráðherra hafa átt samtal við starfsbróður sinn á Sri Lanka og í kjölfarið var einnig sent bréf frá íslenskum stjórnvöldum þar sem málið var skýrt til hlítar. Telst málinu lokið af beggja hálfu, að sögn Grétu. Aðspurð um það hvort líklegt væri að Bjarni færi til starfa hjá SLMM á Sri Lanka úr þessu sagði Gréta að ekki væri raunhæft að gera ráð fyrir því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert