Ráðuneytin stefna að því að minnka skriffinnsku

Öll ráðuneytin hafa undanfarna mánuði farið yfir reglur sem þau starfa eftir og stjórnsýsluframkvæmd til að koma auga á leiðir til að auðvelda almenningi og fyrirtækjum samskipti við hið opinbera. Hafa ráðuneytin einsett sér að vinna markvisst að úrbótum á næstu tveimur árum með því að einfalda reglur og draga úr skriffinnsku.

Markmiðið er að framkvæmd reglna verði sem minnst íþyngjandi, óþarfa kröfur um leyfi og upplýsingagjöf af hálfu fyrirtækja verði afnumdar, kostir rafrænnar stjórnsýslu verði nýttir betur og aðgengi almennings að upplýsingum um gildandi lög verði bætt.

Einföldunaráætlanir ráðuneytanna eru liður í aðgerðaáætlun um Einfaldara Ísland sem ríkisstjórnin samþykkti í október 2006. Meginábyrgð á framkvæmd hennar er á herðum hvers og eins ráðuneytis en forsætisráðherra hefur yfirumsjón með verkefninu og nýtur við það aðstoðar samráðshóps ráðuneyta, skrifstofu Alþingis, Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Fyrir utan markvisst átak til að einfalda gildandi reglur, felur áætlunin í sér að vandað verði sérstaklega til setningar nýrra reglna einkum ef þær eru íþyngjandi fyrir fyrirtæki eða einstaklinga.

Tilkynning um einföldunaráætlun ráðuneyta

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert