Eiga forkaupsrétt á hlut Orkuveitunnar

Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur mbl.is/Þorkell

Hluthafar í Reykjavík Energy Invest (REI) eiga forkaupsrétt á hlut Orkuveitunnar (OR), komi til sölu hans, enda er forkaupsréttarákvæði bundið í samninga um samruna REI og Geysis Green Energy (GGE). Ákvæðið gildir fram að skráningu hlutabréfa í félaginu á almennan markað og gildir um allan hlut Orkuveitunnar, að undanskildu því sem stóð til að selja öðrum.

Ef Orkuveitan selur hlut sinn í REI, eins og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa lýst yfir að verði gert, þá eiga aðrir hluthafar rétt á því að ganga inn í samninginn á því verði sem býðst fyrir hlutinn. Orkuveitan á 35,5% hlut í REI eftir sameiningu við GGE en aðrir hluthafar eru meðal annarra FL Group, Atorka, Glitnir, VGK Invest og Bjarni Ármannsson.

Kaupandi að hlut Orkuveitunnar í REI hefur þegar gefið sig fram, að því er heimildir Morgunblaðsins herma, og verði því tilboði tekið hagnast Orkuveitan um 10 milljarða króna á sölunni. Samkvæmt heimildum blaðsins telja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins líklegt að aðrir hluthafar fáist til að falla frá forkaupsrétti sínum við sölu hlutarins.

Selja strax eða bíða?

Augljós ágreiningur er milli borgarfulltrúa Framsóknarflokks annars vegar og borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks hins vegar, um hvernig OR eigi að draga sig út úr REI. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja selja hlutinn strax á næstu mánuðum. Björn Ingi Hrafnsson segir hins vegar að til greina komi að selja lítinn hlut í REI, jafnvel til að vega upp á móti því áhættufjármagni sem lagt hefur verið í fjárfestinguna. "Svo þegar fyrirtækið hefur þroskast meira, og er kannski tilbúið til skráningar, þá er hægt að selja stærri hlut – og jafnvel allan afganginn – til að reyna að fá sem mest fyrir hlutinn," segir hann.

"Ég var alltaf þeirrar skoðunar að eina leiðin til að hámarka verðmæti, sem við eigum þarna og felast í okkar þekkingu, reynslu og kunnáttu á þessu sviði, væri að fara þá leið að stofna þetta fyrirtæki og fá viðurkennt inn í þá stofnun um 10 milljarða fyrir okkar vörumerki," sagði Vilhjálmur eftir fund með borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokks í gær. "Nú er það komið, þannig að við ætlum að selja okkar hlut og draga okkur smám saman út úr þessu á næstu mánuðum."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert