365 miðlar dæmdir til að greiða miskabætur vegna frétta í DV

Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag ómerkingu staðhæfinga sem birtar voru í DV árið 2005 um störf sálfræðingsins Gunnars Hrafns Birgissonar. Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, fyrrum ritstjórar DV, voru hins vegar sýknaðir af kröfum Gunnars og málskostnaður þeirra á milli í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður. 365 miðlar voru hins vegar dæmdir til að greiða Gunnari 1 milljón króna í miskabætur og 200 þúsund krónur til að standa straum af birtingu dómsins.

Þá voru 365 miðlar dæmdir til að greiða Gunnari 1,2 milljónir króna í málskostnað.

Í Hæstaréttardómnum segir, að ummælin hafi átt það sammerkt að fela í sér fullyrðingar um staðreyndir og að þau verði ekki réttlætt með því að um gildisdóma hefði verið að ræða. Jafnframt hafi ummælin verið dregin upp á mjög áberandi hátt og verið til þess fallin að varpa rýrð á störf Gunnars. Ritstjórum og útgefanda hefði mátt vera fulljóst að atlaga blaðsins gegn honum hlyti að bitna harkalega á honum þegar höfð væru í huga þau trúnaðarstörf, sem hann gegndi í viðkvæmum málum og því hefði verið enn ríkari þörf á vandaðri könnun staðreynda en ella. Ákvæði héraðsdóms um ómerkingu ummæla skuli því vera óraskað. Dómurinn telji hins vegar ekki efni til að beita refsingu vegna þeirra.

Í héraðsdómi voru Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason dæmdir til að greiði stefnanda 1.500.000 kr. í miskabætur vegna málsins. Þeir voru hins vegar sýknaðir af refsikröfu í málinu og einnig voru 365 prentmiðlar ehf. sýknaðir af öllum kröfum stefnanda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert