Pétur sker upp heilbrigðiskerfið

Pétur Blöndal
Pétur Blöndal

Pétur Blöndal, tryggingafræðingur og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, verður formaður nefndar á vegum heilbrigðisráðherra sem fær það verkefni að einfalda greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu. Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra vonast til þess að fljótlega náist árangur í þeim hluta sem snýr að lyfjamálum.

Guðlaugur segir núverandi stöðu í lyfjamálum ekki til þess fallna að hlutirnir séu gerðir á hagkvæman hátt.

Nefnd Péturs snýr sér fyrst að endurgreiðslum vegna lyfja, en svo verður farið koll af kolli í alla þætti sjúkratrygginganna. Stefna heilbrigðisráðherra er að gjörbreyta kerfinu til einföldunar.

Pétur segir það geta komið í veg fyrir sóun, það geti fjarlægt óréttlæti sem hvetur fólk til að misnota kerfið eða velja dýrasta kostinn þegar annar jafngóður og hagkvæmari er í boði. Draumsýn Péturs er að einstaklingar standi frammi fyrir heilbrigðiskerfinu sem einni heild.

„Þátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu á Íslandi er mjög flókin, erfitt að sjá í gegnum hana og því verður að breyta. Sumt gjaldfrjálst á einum stað en greitt fullu verði á öðrum. Stundum er spurningin aðeins hvar þjónustan er veitt. Mjög erfitt að sjá að nokkur rök séu fyrir ýmsum skrautlegum og ótrúlegum reglum. Reglur um lyfjakostnað eru svo flóknar að maður spyr sig hvort nokkur hugsun búi að baki," segir Pétur.

„Þó virðist glitta í þau rök að ef sjúkdómar eru lífshættulegir eigi menn frekar að fá lyfin endurgreidd. Þeir sem þjást af langvinnum veikindum eiga oft ekki síður erfitt með að borga þótt sjúkdómurinn sé ekki banvænn."

Ef draumur Péturs rætist verður kerfið þannig að fólk fái gjaldfrjálsa þjónustu þegar hámarki í útgjöldum er náð og þá á ekki að skipta máli hvort sjúklingar hafa notað peninga til að kaupa lyf eða fara til læknis. „Núna eru kerfin mörg og virka ekki saman. Markmiðið er að ná til þeirra sem helst þurfa aðstoð.," segir Pétur Blöndal.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert