Lúxus fyrir 50 milljónir plús

24 Stundir

Í Noregi var í september til sölu 1401 íbúðareign fyrir fjórar milljónir norskra króna og yfir, eða sem svarar 44 milljónum íslenskra króna. Á fréttavef Dagens Næringsliv í Noregi er bent á að aldrei áður hafi þeir sem hafi fé á milli handanna getað valið á milli svo margra dýrra íbúða.

Á Íslandi var í gær 661 íbúðareign fyrir 45 milljónir króna og yfir auglýst til sölu, að því er kom fram á fasteignavef mbl.is. Sumar eru að vísu skráðar hjá fleirum en einum fasteignasala þannig að fjöldinn endurspeglar ekki nákvæmlega framboðið.

Þótt hér séu margar íbúðir á yfir 45 milljónir til sölu miðað við mannfjölda er það ekki til marks um að íbúðaverð hér sé miklu hærra en í Noregi, að mati Ingibjargar Þórðardóttur, formanns Félags fasteignasala. Hún segir íbúðir sem kosta frá 35 til 45 milljónir ekki flokkast undir lúxusfasteignir. ,,Það eru bara fjölskylduíbúðir. Það er kannski hægt að tala um lúxusíbúðir þegar verðið er komið yfir 50 milljónir. En við erum ekki samanburðarhæf við það sem gerist í Noregi þar sem það er flottast. Fermetraverð á dýrum stöðum í Ósló er 600 þúsund íslenskar krónur en verðið er að vísu farið að hækka hér á eftirsóttustu stöðunum," greinir Ingibjörg frá. Hún segir að þess séu dæmi nú orðið að fermetraverðið sé 400 þúsund krónur. ,,Þess er farið að gæta að verðið sé svona hátt á dýrustu stöðunum á höfuðborgarsvæðinu. Það er staðsetningin sem skiptir öllu máli."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert