Norska landhelgisgæslan hefur afskipti af íslensku skipi

Gullberg sem nú heitir Kap VE
Gullberg sem nú heitir Kap VE mbl.is/Hafþór

Norska landhelgisgæslan vísaði Kap Ve, sem áður hét Gullberg, til hafnar í Noregi í morgun. Kap var á leið til Íslands með um 300 tonn af síld en var snúið við og siglir nú til Sortland með norska varðskipið Harstad sér við hlið.

Þetta kemur fram á sudurland.is. Þar er haft eftir Gísla Garðarssyni, skipstjóra, að þeir hafi landað meiri afla en þeir gáfu upp.

„Við gáfum upp aflann þegar við hættum veiðum og áður en við sigldum í land. Svo var aflanum landað og hann vigtaður og þá kom í ljós að það munaði um 40 tonnum á því sem við gáfum upp og því sem landað var. Þannig að þetta er í mínum huga algjör tittlingaskítur,“ sagði Gísli Garðarsson.

Gísli átti von á því að verða tekinn í skýrslutöku þegar í land yrði komið. „En ætli við þurfum ekki að bíða þangað til á morgun þar sem við komum líklega að landi um sexleytið og þá verður búið að loka öllu. Þannig að þetta kemur til með að tefja okkur um einn og hálfan sólarhring eða meira jafnvel,“ sagði Gísli í samtali við sudurland.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert