790 milljónum varið í starfsmannamál Reykjavíkurborgar

Ráðhús Reykjavíkur
Ráðhús Reykjavíkur mbl.is/Sverrir

Sjöhundruð og níutíu milljónum verður varið til markvissra aðgerða til að gera Reykjavíkurborg að eftirsóknarverðari vinnustað að því er fram kemur í tillögu borgarstjóra, sem kynnt var fjölmiðlum í gær, og samþykkt var í borgarráði í dag.

Alls verður 200 m. kr. varið til að umbuna starfsmönnum undirmannaðra stofnana, einkum leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og hjúkrunarheimila, vegna álags á yfirstandandi og komandi ári, samkvæmt tilkynningu.

Samþykktin felur í sér að öllum borgarstarfsmönnum í föstu starfi standi til boða 16.000 kr. árlegur heilsuræktarstyrkur miðað við fullt starf, sundkort, bókasafnskort, aðgangskort að söfnum borgarinnar og í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Foreldrar ungra barna njóta forgangs að vistun fyrir barn/börn sín í leikskóla og/eða eftir atvikum frístundaheimilum á meðan þeir starfa á áðurnefndum vinnustöðum borgarinnar.

Fjármunir renna til leikskóla, grunnskóla (1-4 bekk) og hjúkrunarheimila vegna greiðslu til þeirra starfsmanna sem skylt er að matast með þjónustuþegum/nemendum og velja ekki styttri vinnutíma á móti vinnuframlagi sínu.

Borgarráð veitir samninganefnd heimild til að endurskoða ákvæði um starfsaldur með þeim hætti að starfstími hjá ríki og öðrum sveitarfélögum í sambærilegum störfum verði metinn til jafns við starfstíma hjá Reykjavíkurborg.

Jafnframt er gert ráð fyrir markvissum aðgerðum til að laða að nýja starfsmenn, t.d. eldri starfsmenn, starfsmenn af erlendum uppruna og námsmenn. Kostnaður við tillögurnar er metinn á 108,6 m.kr. vegna ársins 2007 og 681 m.kr. vegna ársins 2008 eða alls 789,6 m.kr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert