Hætta á gæðalitlu námi

Erfitt getur reynst að tryggja að fjölgun skólastofnana komi ekki niður á gæðum námsins sem boðið er upp á. Þetta segir Svali H. Björgvinsson, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs hjá Kaupþingi banka, sem gagnrýnir þá áherslu sem virðist vera í þjóðfélaginu á að fjölga menntastofnunum, í stað þess að efla gæði námsins.

"Háskóli er aldrei betri en þeir kennarar sem kenna þar og það umhverfi sem hann getur boðið upp á. Ef háskólarnir eru í sömu vandræðum með að manna stöður og aðrar stofnanir og fyrirtæki, á sama tíma og verið er að reyna að byggja upp innviði háskólanna, getur orðið erfitt að tryggja að gæði námsins verði í lagi," segir Svali, sem tekur það þó fram að hann sé ekki að gagnrýna gæða náms í einstaka skólum.Hann setur einnig spurningarmerki við þá áherslu sem hefur verið lögð á að koma á fót framhaldsnámi hér á landi í öllum greinum.

"Í mínum huga eigum við frekar að leggja áherslu á öflugt grunnnám, þótt einnig verði að bjóða upp á framhaldsnám handa þeim sem ekki eiga kost á að sækja nám erlendis. Það er mikill kostur að starfsmenn hafi sem flestir stundað framhaldsnám erlendis og þannig tileinkað sér mismunandi starfsaðferðir og fjölbreytt viðhorf."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert