Geysir Green segir samninga vera fullgilda

mbl.is/Guðmundur Rúnar

Stjórn Geysis Green Energy segist telja, að bæði þjónustusamningur Orkuveitu Reykjavíkur við Reykjavik Energy Invest og samningur um breytingu á eignarhaldi Reykjavik Energy Invest og samruna þess við Geysi Green Energy séu fullgildir enda samþykktir af þar til bærum aðilum. Borgarráð samþykkti í dag að hafna samruna REI og Geysis Green og hafna 20 ára einkaréttarsamningi REI við OR.

Þá segir í yfirlýsingunni, að stjórn Geysis Green Energy undrist niðurstöðu borgarráðs og bíði þess að fá fullnægjandi skýringar á ákvörðuninni og á hvaða forsendum borgarráð telji sig geta rift gerðum samningum. Skilningur félagsins sé sá, að gerðum samningum sé aðeins breytt með nýjum samningum eða ákvörðun dómstóla.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

    Í kjölfar niðurstöðu fundar borgarráðs Reykjavíkur í dag þess efnis að hafna samruna Reykjavik Energy Invest og Geysis Green Energy og þeim þjónustusamningi sem gerður hefur verið á milli Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavik Energy Invest, vill stjórn Geysis Green Energy koma eftirfarandi á framfæri:

    Það er mat stjórnar félagsins að bæði þjónustusamningur Orkuveitu Reykjavikur og Reykjavik Energy Invest og samningur um breytingu á eignarhaldi Reykjavik Energy Invest og samruna þess við Geysi Green Energy séu fullgildir enda samþykktir af þar til bærum aðilum.

    Í svari Reykjavíkurborgar til umboðsmanns Alþingis sem birt var þann 31. október lýsir borgarlögmaður því áliti að um þá samninga sem stjórn Orkuveitu Reykjavíkur gerir gildi reglur einkaréttar og þar með að stjórn Orkuveitunnar standi að þessum samningum en ekki borgarráð.

    Stjórn Geysis Green Energy undrast niðurstöðu borgarráðs og bíður þess að fá fullnægjandi skýringar á ákvörðuninni og á hvaða forsendum borgarráð telur sig geta rift gerðum samningum. Skilningur félagsins er sá að gerðum samningum sé aðeins breytt með nýjum samningum eða ákvörðun dómstóla. Stjórn félagsins og hluthafar þess munu á næstu dögum fara vandlega yfir málið.

    Mikil tækifæri fyrir sameinað félag
    Geysir Green Energy og Reykjavik Energy Invest hafa um nokkurt skeið átt gott samstarf og unnið saman að fjölmörgum útrásarverkefnum víða um heim. Með samruna félaganna verður til öflugt félag á sviði orkuútrásar. Sameinað félag gæti tekið að sér fleiri og stærri verkefni og keppt við öflug alþjóðleg fyrirtæki á þessu sviði.

    Stjórn Geysis óttast að ákvörðun borgarráðs geti sett þessi verkefni í uppnám og að þeir samningar sem gerðir hafa verið við erlenda samstarfsaðila geti verið í hættu, auk þess sem ímynd íslenskra fyrirtækja á þessum vettvangi gæti skaðast til frambúðar. Þar af leiðandi geta umtalsverð fjárhagsleg verðmæti tapast fyrir hluthafa Reykjavik Energy Invest, Geysi Green Energy og eigendur Orkuveitu Reykjavíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert