Tófa aflífuð á Flateyri

Refur í vetrarbúningi.
Refur í vetrarbúningi. mbl.is/Jónas

Lögregla lógaði í vikunni hálftaminni tófu á Flateyri eftir að tilkynningar höfðu borist um ónæði af dýrinu. Tófan hafði verið í umsjá Kristjáns Einarssonar, grenjaskyttu á Flateyri, sem hefur margoft tekið með sér yrðlinga af greni um vortíma og alið þá svo yfir sumarið og reynt að temja.

„Í þetta skiptið gekk vel, hún var orðin nokkuð spök, fylgdi mér um allt eins og hundur. Liður í þessari tamningatilraun minni var að sleppa henni út í náttúruna og vita hvort hún kæmi aftur. Ég setti merki í hana því ég hugsaði með mér að það gæti verið gaman að fylgjast með því hverjar ferðir hennar yrðu. Ég prófaði að sleppa henni og hún kom til baka daginn eftir. Þá hringir lögreglan í mig í fyrsta skiptið og biður mig að fjarlægja dýrið því það hafi borist kvartanir. Þá höfðu krakkarnir verið að leika við hana á sparkvellinum hér rétt hjá, og gerði hún engum mein. Mér dettur helst í hug að hún hafi virkað ógnvekjandi á einhverja, bara líkt og hundar geta gert. Á þriðjudaginn sleppti ég henni svo í seinna skiptið og fór þá með hana lengra í burtu.,“ segir Kristján við bb.is.

Á miðvikudag hringdi lögreglan aftur í Kristján í vinnunni og sagðist vera búin að handsama tófuna því hún hafi verið komin aftur til byggða. Í kjölfarið var dýrinu lógað.

Lögreglan á Ísafirði gat ekki tjáð sig mikið um þetta mál en sagði að þegar þrjár tilkynningar bærust til lögreglunnar vegna villtrar skepnu bæri þeim að gera eitthvað í því máli. Tófur væru villt dýr og foreldrar hefðu verið áhyggjufullir, því þetta sé hvorki saklaus hvolpur né hundur. Tófan hefði líklega aldrei lifað af í náttúrunni og sífellt snúið til byggða eftir fæði.

Kristján vill láta koma fram að hann beri ekki kala til eins né neins en finnist leiðinlegt hvað þetta sé búið að valda miklu írafári. „Þetta er lítið samfélag hér á Flateyri og allir þekkjast og sá sem fannst tófan valda sér ama hefði nú einfaldlega bara getað hringt í mig, það er algjör óþarfi að blanda Neyðarlínunni og lögreglunni í málið.“

bb.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert