Húsfriðunarnefnd vill varðveita Norska bakaríið

Norska bakaríið skal varðveita að mati Húsfriðunarnefnd ríkisins.
Norska bakaríið skal varðveita að mati Húsfriðunarnefnd ríkisins. mbl.is/mynd fengin á bb.is

Húsafriðunarnefnd ríkisins leggst gegn niðurrifi húseignarinnar að Silfurgötu 5 á Ísafirði, Norska bakaríinu svokallaða. Bréf þessa efnis frá Magnúsi Skúlasyni, formanni Húsafriðunarnefndar, var tekið fyrir á fundi umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar í dag. Í bréfi Magnúsar segir m.a. að þótt húseignin hafi tekið nokkrum breytingum í tímans rás, sé lagst gegn niðurrifi þess.

Húsið hafi mikið varðveislugildi sökum aldurs, en það var byggt árið 1884, menningarstarfsemi og staðsetningar þess á horni Silfurgötu og Brunngötu. Húsið sé því afar mikilvægt í götumynd Silfurgötu.

Í bréfi Magnúsar segir ennfremur: „Nefndin leggur til að húsið á lóð nr. 20 við Brunngötu verði ekki rifið, en flutt yfir á hornlóðina Silfurgötu 3, þar sem fyrr stóðu Þórustaðir (byggt sem skóli árið 1875 og rifið 1984). Með því að endurgera norska bakaríið og flytja húsið sem stendur á Brunngötu 20 á hornlóðina gegnt því, myndi götumynd Silfurgötunnar styrkjast verulega og nýr grunnskóli gæti nýtt rými þessara húsa fyrir einhverja af starfsemi sinni.

Ekki verður séð að kröfur um stærð skólalóðar skv. reglugerðarákvæðum í einum elsta miðbæ landsins verði til þess að farga merkri byggingararfleiðs hans.“ Umhverfisnefnd hefur óskað umsagnar byggingarnefndar Grunnskólans á Ísafirði vegna þessa.

Þetta kemur fram á fréttavef Bæjarins Besta (bb.is).

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert