Farsímaþjónusta dýrust á Íslandi

Verð á farsímaþjónustu hérlendis hefur lækkað um 23,5 prósent frá því í nóvember 2003. Á sama tíma hefur verðið lækkað um tæplega 60 prósent að meðaltali annars staðar á Norðurlöndum. Mest hefur lækkunin orðið á þessu ári en þar áður hafði verð fyrir farsímaþjónustu á Íslandi lækkað um níu prósent á þriggja ára tímabili.

Í nóvember 2003 var farsímaþjónusta dýrari bæði í Noregi og Svíþjóð en hún var á Íslandi. Í Finnlandi kostaði hún nánast það sama en í Danmörku var hún aðeins ódýrari, samkvæmt útreikningum Teligen, sem er virt alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki á sviði fjarskiptaþjónustu.

Í dag er farsímaþjónusta um 38 prósentum dýrari á Íslandi en hún er að meðaltali í hinum norrænu ríkjunum. Ef miðað er við Danmörku kemur í ljós að farsímaþjónusta er meira en helmingi dýrari hérlendis en í Danmörku.

Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, segir stofnunina telja að minni samkeppni ríki á fjarskiptamarkaði vegna þess hversu fá fyrirtæki bjóði upp á slíka þjónustu á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert