Vilja kalla friðargæsluliða heim frá Afganistan

Hollenskir hermenn í Afganistan.
Hollenskir hermenn í Afganistan. Reuters

Fjórir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að íslenskir friðargæsluliðar verði kallaðir heim frá Afganistan og að íslenska friðargæslan verði endurskipulögð. Segja þingmennirnir að Íslendingar geti komið að miklu meira gagni annars staðar þar sem vandi steðjar að.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Segir í greinargerð, að tillagan m.a. byggð á þeirri skoðun, að forsendur fyrir dvöl íslensku friðargæslunnar í Afganistan verði að teljast lagalega afar hæpnar með tilliti til anda og markmiða nýrra laga um íslensku friðargæsluna.

Fimmtán Íslendingar starfa nú á vegum friðargæslunnar í Afganistan. Í greinargerð með tillögunni segir að þeir starfi að verkefnum, sem stjórnað sé af Atlantshafsbandalaginu og beri a.m.k. sumir hverjir starfstitla í samræmi við hernaðarskipulag NATO. Átök fari nú harðnandi í Afganistan milli hersveita NATO og skæruliða talibana, sem hafi sótt í sig veðrið jafnt og þétt. Fjöldi óbreyttra borgara, sem fallið hafi í þeim átökum, einkum í loftárásum NATO, skipti þúsundum og aukist eftir því sem líður á stríðið. Loftárásirnar virðist hins koma að litlu gagni og ekki ná að binda endi á ófriðinn í landinu.

„Atlantshafsbandalagið er komið út í mikla ófæru í Afganistan, í verkefninu sem Bandaríkjamönnum hentaði að henda í NATO, sem eins konar upphreinsunardeild, tveimur árum eftir að þeir létu sprengjum rigna yfir landið með hjálp Breta, haustið 2001. Betra en ekki væri að draga íslensku friðargæsluliðana strax út úr samstarfinu við NATO og færa liðsaflann t.d. undir stjórn Sameinuðu þjóðanna í landinu. Langheppilegast er þó að kalla einfaldlega liðsaflann heim, eins og tillagan gerir ráð fyrir, og endurskipuleggja í framhaldinu alla okkar framgöngu og verkefnaval á þessu sviði," segir í greinargerð tillögunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert