Afbrotum fjölgaði milli ára

Skráðum hegningarlagabrotum fjölgaði lítillega á milli áranna 2005 og 2006 en  voru þó umtalsvert færri en þau voru á árabilinu 2001-2004. Það sama á við um umferðarlagabrot, þau voru fleiri en árið 2005 en færri en á árunum 2001-2004. Hraðakstursbrot hafa hins vegar aldrei verið fleiri og fjöldi ölvunarakstursbrota var meiri en síðastliðin fimm ár.

Þetta kemur fram í yfirliti ríkislögreglustjóraembættisins yfir afbrot á síðasta ári.

Brot vegna þess að bílbelti voru ekki notuð voru 1855 sem er fækkun frá meðaltali 2001-2005. Þjófnaðarbrot voru 3457 sem er fjölgun frá síðustu tveimur árum á undan en innbrot voru fátíðari en meðaltal fimm fyrri ára. Flest innbrot voru framin í íbúðarhúsnæði (34%) og á bifreiðastæðum (28%). Alls voru 50 rán tilkynnt sem er svipaður fjöldi og árið 2005.

Tilkynnt var um 281 kynferðisbrot til lögreglu árið 2006 sem er svipaður fjöldi og árið 2005. Þá voru skráðar 67 nauðganir en brotin voru 64 að meðaltali 2001-2005. Kynferðisbrot gegn yngri en 14 ára voru 50% fleiri en meðaltal fimm fyrri ára segir til um en mök við börn uppalanda hins vegar 26% færri en meðaltal 2001-2005.

Ekkert manndráp var framið á Íslandi árið 2006 en tilkynnt um sjö manndrápstilraunir til lögreglunnar. Tilkynnt var um 1007 líkamsárásir  en meðaltal áranna 2001-2005 er það sama. Flestar líkamsárásir (37%) og líkamsmeiðingar (33%) áttu sér stað utandyra, næstflestar í íbúðarhúsnæði (25% líkamsárása og 29% líkamsmeiðinga) og á skemmtistöðum (24% líkamsárása og 29% líkamsmeiðinga).

Árið 2006 voru skráð fíkniefnabrot 2.098 sem er 55% fjölgun miðað við meðaltal síðustu fimm ára. Brot er vörðuðu innflutning voru um 30% færri árið 2006 en meðaltal 2001-2005 en brot vegna vörslu og neyslu fíkniefna voru um 80% fleiri. Tekin voru rúm 28 kíló af kannabislaufum, tæp 47 kíló af amfetamíni og tæp 13 kíló af kókaíni og hefur haldlagt magn þessara efna aldrei verið meira.

Skýrsla ríkislögreglustjóra

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert