Ritstjóri tímarits sektaður fyrir áfengisauglýsingu

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sektað ritstjóra tímaritsins Gestgjafans um 200 þúsund krónur fyrir að láta birta auglýsingu um áfengi  blaðinu árið 2005. Ritstjórinn var hins vegar sýknaður af ákæru vegna umfjöllunar um þrjár bjórtegundir í sama blaði.

Ákært var vegna heilsíðumyndar af Amarula líkjörsflösku, sem birtist í Gestgjafanum. Ritstjórinn sagði að myndin hefði átt að vera hluti af umfjöllun um Amarula-tréð og hafi umfjöllunin um tréð átt að vera á vinstri síðunni en myndin á þeirri hægri.  Myndin hafi birst en ekki umfjöllunin.  Ástæðan hafi verið sú að um svipað leyti hafi tímaritið verið að opna vefsíðu og af þeim sökum hafi auglýsing um vefsíðuna birst þar sem fjalla átti um tréð og birtast mynd af því og fílum. Innflytjandi áfengisins hefði ekki greitt fyrir þetta.

Dómurinn segir í niðurstöðu sinni, að myndin hafi verið áfengisauglýsing sem brjóti í bága við áfengislög.

Einnig var ákært vegna mynda af bjórtegundum. Með þeim myndum fylgdi umfjöllun um bjórinn og sagði ritstjórinn að ritstjórn blaðsins hefði unnið þá umfjöllun upp úr upplýsingum um bjórinn og innflytjendur hefðu ekki greitt fyrir.

Dómurinn taldi, að þessi umfjöllunin væri ekki tilkynning til almennings vegna markaðssetningar heldur umfjöllun um neysluvöru sem leyfileg sé í landinu.  Breyti engu um það mat þótt mynd sé birt af bjórtegundunum. Var ritstjórinn því sýknaður af þessum ákærulið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert