Viðræðum við landeigendur við Þjórsá haldið áfram

Fyrirhugað er að reisa þrjár virkjanir neðarlega í Þjórsá.
Fyrirhugað er að reisa þrjár virkjanir neðarlega í Þjórsá. mbl.is/RAX

Landsvirkjun segir, að athugasemdir Ríkisendurskoðunar við samkomulag Landsvirkjunar og ríkisins frá 9. maí breyti ekki því meginatriði sem felist í samkomulaginu, að Landsvirkjun hafi heimild til að ræða og semja við landeigendur á grundvelli Títan-samninganna.

Á heimasíðu sinni segir Landsvirkjun að nauðsynlegt sé að þær samningaviðræður verði leiddar til lykta því sveitarstjórnir vestan Þjórsár hafi óskað eftir því, að áður en komi til staðfestingar á aðalskipulagi liggi fyrir samkomulag við þá jarðeigendur sem hagsmuna eiga að gæta vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Nýting Landsvirkjunar á vatnsaflinu í neðri hluta Þjórsár, þegar þar að komi, sé hins vegar háð er því að ríkið hafi heimildir til að ráðstafa vatnsréttindunum.

Samningaviðræður við landeigendur hafa m.a. farið fram á grundvelli samkomulags Landsvirkjunar við íslenska ríkið, sem er eigandi vatnsréttinda og tilheyrandi landsréttinda samkvæmt svokölluðum Títan-samningum.

Landsvirkjun segir, að samkomulagið frá 9. maí 2007 hafi fyrst og fremst miðað að því að ríkið veitti Landsvirkjun ótvíræða heimild til að koma fram sem viðsemjandi um nýtingu landsréttinda vegna virkjunar á grundvelli Títan-samninganna og gæti haldið áfram virkjunarundirbúningi.

Landsvirkjun segist alltaf hafa gert sér grein fyrir því að ekki sé um varanlegt framsal vatnsréttinda að ræða í samkomulagi fyrirtækisins við íslenska ríkið. Niðurstaða Ríkisendurskoðunar sé sú að afla þurfi sérstakrar lagaheimildar til þess að ráðstafa vatnsréttindum ríkisins í neðri hluta Þjórsár og að á meðan slíka heimild skorti sé samkomulagið ekki bindandi fyrir ríkissjóð.

Landsvirkjun stefnir að því að sækja um virkjunarleyfi á næsta ári fyrir áformaðar virkjanir í neðri hluta Þjórsár og segir, að fáist þau verði gengið til samninga við ríkið um yfirtöku vatnsréttinda og greiðslu endurgjalds fyrir þau. Nú þegar séu hafnar viðræður við aðra vatnsréttareigendur, sem eru eigendur um 8% vatnsréttinda við Urriðafossvirkjun.

Fyrirtækið segir, að næg eftirspurn sé eftir orkunni og standi viðræður yfir m.a. við Becromal Iceland sem hreinsar kísil í sólarrafala og Verne Holding sem hyggst byggja upp netþjónabú hér á landi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert