Sáu ekki fram á að geta haldið jól

Guðrún Björg Tómasdóttir, Ágústa J Hardberg, Birna Árnadóttir og Sigurfljóð …
Guðrún Björg Tómasdóttir, Ágústa J Hardberg, Birna Árnadóttir og Sigurfljóð Skúladóttir röðuðu í poka hjá Mæðrastyrksnefnd í Kópavogi í gær.

Síðasta hefðbundna úthlutun Fjölskylduhjálpar Íslands var í gær en jólaúthlutun verður í dag og fimmtudag fyrir þá sem sótt hafa um hana.

Jólaúthlutun er einnig hafin hjá Mæðrastyrksnefndum víða um land en í Reykjavík verður úthlutað í dag og á morgun til þeirra sem sótt hafa um.

Hafi fólk af einhverjum ástæðum gleymt að sækja um hjá Mæðrastyrksnefnd verður neyðarúthlutun næsta föstudagsmorgun milli 10 og 12. Að sama skapi verður neyðarvakt hjá Fjölskylduhjálpinni en að sögn Ásgerðar Flosadóttur, formanns Fjölskylduhjálparinnar, fengu sjö fjölskyldur neyðaraðstoð fyrir jólin í fyrra.

Forsvarsmenn Mæðrastyrksnefnda bæði í Reykjavík og Kópavogi auk Fjölskylduhjálparinnar segja æ fleiri þurfa á aðstoð að halda og segir Ásgerður nokkur dæmi um fólk sem sæki um hjálp í fyrsta sinn. Hún nefnir dæmi af sjö manna fjölskyldu þar sem karlinn vinnur við fiskvinnslu en konan við umönnunarstörf. Þau sáu ekki fram á að geta haldið jól.

Hjá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur hófst jólaúthlutun í dag og gerir Margrét K. Sigurðardóttir hjá nefndinni ráð fyrir að hátt í 2000 fjölskyldur verði aðstoðaðar fyrir þessi jól.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert