Bullur teknar nýjum tökum?

Vitundarvakning þarf að verða meðal þjóðarinnar vegna ofbeldis gegn lögreglumönnum, að mati Sveins Ingibergs Magnússonar formanns Landssambands lögreglumanna (LL), ef sporna á við slæmri þróun síðustu tveggja ára þar sem árásum á lögreglumenn hefur fjölgað um 19% að meðaltali.

 Nú síðast var ráðist á lögreglumann á Akureyri aðfaranótt sunnudags og er það þriðja tilfellið sem þar kemur upp á stuttum tíma.

Breytt tök og valdbeitingartæki

Að sögn Sveins hefur þetta aukna ofbeldi verið til umræðu hjá LL og eins hjá kollegum þeirra á Norðurlöndum, þar sem sömu þróunar hefur gætt. Í vor voru breytingar gerðar á hegningarlögum þar sem refsiramminn fyrir brot gegn valdstjórninni var stækkaður, en Sveinn telur að frekari aðgerða sé þörf.

„Við höfum skoðað til dæmis hvort breyta þurfi þessum lögreglutökum, við erum enn að nota sömu tök og fyrir 20 árum, en þau hafa ekki reynst heppileg þegar þú ert að fást við trylltan mann.“ Þá hefur verið rætt hvort senda þurfi fleiri á vettvang þar sem vitað er að róa þurfi æsingar. Loks hefur sú spurning vaknað hvort lögreglan sé vanbúin og þá m.a. hvort æskilegt væri að nota hinar umdeildu rafbyssur. „Miðað við rannsóknir sem við höfum séð erlendis frá virðist þetta tæki hafa dregið verulega úr meiðslum lögreglumanna í starfi og líka þeirra sem verið er að yfirbuga. Hinsvegar þurfum við að athuga vel hvort þetta sé skaðlaust.“

Sveinn segir nauðsynlegt að horfast í augu við þá áhættu sem lögreglumenn á Íslandi búa við, þegar um 10–14% þeirra verði árlega fyrir skaða vegna ofbeldis. „Það er ekki hægt að stæra sig af því að við séum með vopnlausa lögreglu á meðan við fáum allt að hundrað kærur á ári um ofbeldi gegn lögreglumönnum. Þá þurfum við að spyrja okkur hversu friðsöm við erum í raun sem þjóð.“

Í hnotskurn
» Sparkað var í bak og fætur lögreglumanns á Akureyri og hrækt í augun á öðrum aðfaranótt sunnudags.
» Fyrstu 8 mánuði ársins voru tilkynnt 73 ofbeldisbrot gegn lögreglu. Sjaldnast er þó um alvarlega áverka að ræða.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert