Eldsneytishækkanir framundan?

Ekki er ólíklegt að bensínverð muni hækka miðað við ástandið …
Ekki er ólíklegt að bensínverð muni hækka miðað við ástandið á olíumörkuðunum. AP

Ástandið á olíumarkaðinum er slæmt um þessar mundir en í gær bárust fréttir af því að verð tunnu af hráolíu hefði farið yfir 100 dali í fyrsta sinn í sögunni. Innkaupastjóri hjá N1 útilokar ekki að verð á eldsneyti hérlendis geti hækkað miðað við núverandi ástand.

Magnús Ásgeirsson segir í samtali við mbl.is að nú í byrjun janúar ætti verð á olíu að vera í lægð, enda er eftirspurn eftir henni lítil í kringum jólin og alveg fram í janúar. Staðan er hins vegar önnur og er meginástæðan veik staða Bandaríkjadals gagnvart öðrum gjaldmiðlum.

Framundan er fundur OPEC-ríkjanna, samtaka olíuútflutningsríkja, og segir Magnús að þar gæti verið tekin ákvörðun um að olíuframleiðsla verði aukin. „Það var búið að spá, á þessu ári, meiri eftirspurn heldur en á síðasta ári,“ segir Magnús og bætir því við að sú aukning muni koma frá ríkjum sem eru utan OECD.

Ákveði OPEC-ríkin að auka framleiðsluna þá er sú hætta fyrir hendi að það muni ekki hafa jafnmikil áhrif til lækkunar olíuverðs og menn myndu halda, sökum veikrar stöðu Bandaríkjadals gagnvart öðrum gjaldmiðlum að sögn Magnúsar. 

„Ef Bandaríkjadalurinn myndi styrkjast þá yrðu breytingar á olíumörkuðunum, en það er ekki útséð að það verði,“ segir Magnús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert