Sér heilsugæsla fyrir útlendinga

Heilsuverndarstöðin við Barónsstíg.
Heilsuverndarstöðin við Barónsstíg. Árvakur/Ómar

Heilsuverndarstöðin stefnir að því að opna lækna- og hjúkrunarmóttöku fyrir ósjúkratryggða innflytjendur eftir nokkrar vikur. „Við vitum að þörfin er mikil hér. Á höfuðborgarsvæðinu eru 5000 til 6000 ósjúkratryggðir innflytjendur og þeir þurfa á þessari þjónustu að halda. Við ætlum að koma til móts við fólk sem hefur sótt vaktþjónustu sem hefur verið bæði dýr fyrir það sjálft og einnig samfélagið," segir María Ólafsdóttir, sviðsstjóri heilbrigðisþjónustu hjá Heilsuverndarstöðinni.

Undanfarna tvo til þrjá mánuði hefur fjöldi austurevrópskra karlmanna sem komið hafa á slysadeild Landspítalans verið 120 til 140 í hverjum mánuði.

Komurnar hafa ekki bara verið vegna slysa heldur einnig vegna kvilla sem ættu heima á heilsugæslunni, að því er Ófeigur Þorgeirsson yfirlæknir greindi frá í 24 stundum fyrr í þessum mánuði.

Vegna mikils fjölda Pólverja meðal innflytjenda er gert ráð fyrir pólskumælandi starfsmanni, lækni eða hjúkrunarfræðingi, við störf hverju sinni á móttökunni fyrir útlendinga í Heilsuverndarstöðinni. Til að byrja með verður móttakan opin frá 10 til 14.

„En ef þetta vex getum við haft opið frá 8 til 16," tekur María fram. Komugjald verður 4100 krónur sem er samkvæmt taxta Tryggingastofnunar ríkisins fyrir ósjúkratryggða.

Sigurði Guðmundssyni landlækni líst vel á hugmyndina um fyrirhugaða heilbrigðisþjónustu fyrir útlendinga. „Okkur finnst þetta góð hugmynd sem geti gengið upp og verið til gagns en með þeim formerkjum að hún sé hugsuð sem skammtímalausn. Það skiptir gríðarlega miklu máli að við séum ekki að klæðskerasauma lausnir fyrir útlendinga til langframa. Þeir þurfa að komast inn í heilbrigðiskerfið eins og inn í þjóðfélagið að öðru leyti og þessi viðkomustöð, sem fyrst og fremst á að vera ætluð þeim sem eru hér skemur en í sex mánuði og eru þess vegna ekki sjúkratryggðir, gæti verið liður í því."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert