Rannsókn á áhrifum tengingar við evru

Viðskiptaráðuneytið hefur ákveðið að styrkja stofnanir í Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Bifröst til rannsókna á áhrifum aukinnar notkunar erlendra mynta á vörumarkað, fjármálamarkað og samfélag á Íslandi almennt. Ennfremur er fyrirhugað að skoða áhrif mismunandi tenginga við evru á ofangreinda þætti.

Meginspurningarnar eru tvær:  hvort á Íslandi sé að verða til fjölmyntasamfélag og hvaða áhrif það hefur á markaði og samfélag og hvaða afleiðingar ólíkar tengingar við evru hafa á íslenskan fjármálamarkað og fjármálastöðugleika. Fyrirhugað er að niðurstöður liggi fyrir í ágúst 2008 í formi skýrslna og/eða rannsóknaritgerða og verði kynntar opinberlega í kjölfarið.

Fram kemur í tilkynningu að tilgangur rannsóknarinnar sé annars vegar að skýra að hve miklu leyti erlend mynt sé notuð í verslun og á vörumarkaði hér á landi, hvaða erlendu gjaldmiðlar séu mest í umferð í versluninni og hvað hindrar að erlend mynt sé notuð hér við kaup á vörum og þjónustu.

Þá verður  varpað ljósi á hversu víðtækar breytingar þyrftu að eiga sér stað á vörumarkaði til að taka upp annan gjaldmiðil hér á landi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert