Grandi hættir landvinnslu botnfisks í núverandi mynd á Akranesi

HB Grandi á Akranesi.
HB Grandi á Akranesi.

HB Grandi stefnir að því að leggja af landvinnslu botnfisks í núverandi mynd á Akranesi og hefja þar þess í stað sérvinnslu á léttsöltuðum, lausfrystum þorsk- og ufsaflökum í byrjun júní næstkomandi, með tilheyrandi fjárfestingum í tækjum og búnaði. Öllum starfsmönnum HB Granda í landvinnslunni á Akranesi verður sagt upp störfum 1. febrúar og síðan verða endurráðnir 20 starfsmenn í flakavinnslu og til vinnslu loðnuhrogna.

Gert er ráð fyrir að starfsmenn í loðnuvinnslu sinni þessari sérvinnslu utan loðnuvertíðar. 

Á heimasíðu HB Granda segir, að eftir skerðingu aflamarks í þorski hafi botnfiskvinnslan á Akranesi, sem áður snerist um þorsk, verið starfrækt með því að flytja á Akranes hluta þess ufsa, sem ella hefði verið unninn í Reykjavík. Slíkt fyrirkomulag sé ekki hagkvæmt. 

Hins vegar reki HB Grandi mikilvæga  loðnuvinnslu á Akranesi á loðnuvertíð og sé nú til skoðunar að efla þá starfsemi, meðal annars með því að gera mögulegt að heilfrysta þar loðnu. 

Á launaskrá botnfiskvinnslu HB Granda á Akranesi eru nú 59 starfsmenn í 44 stöðugildum en verða 20 í jafnmörgum stöðugildum í júníbyrjun 2008. Starfsfólki verður sagt upp með fjögurra mánaða uppsagnarfresti, sem rennur því út í lok maímánaðar. Þeir sem lengri uppsagnarfrest hafa fá greitt í samræmi við það, en ekki verður krafist vinnuframlags af þeirra hálfu eftir mánaðamótin maí/júní.

Á heimasíðu HB Granda segir að rekstrarumhverfi landvinnslunnar sé  þess eðlis að breytingar séu óhjákvæmilegar í starfseminni með tilheyrandi fækkun starfsfólks. Hópuppsagnir í fiskvinnslufyrirtækjum víðs vegar um land undanfarnar vikur og mánuði segi sína sögu um ástandið í atvinnugreininni. Stjórnendur HB Granda muni eftir megni liðsinna fólki við að komast í vinnu annars staðar.

Stjórnendur HB Granda kynntu áformin á fundi með trúnaðarmönnum starfsfólks í dag og síðan á almennum starfsmannafundi sem hófst kl. 11 á Akranesi. Stjórn HB Granda tekur endanlega ákvörðun um breytingar á Akranesi á mánudaginn kemur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert