Helmingur nettengdra bænda búa við gamaldags tengingar

Reuters

Stjórn Bændasamtaka Íslands lýsir yfir miklum vonbrigðum með að ekki hafi tekist að uppfylla það markmið fjarskiptaáætlunar stjórnvalda að allir landsmenn ættu kost á háhraðatengingum við netið á árinu 2007.

Bændasamtökin vísa til þess, að samkvæmt skýrslu fyrrverandi samgönguráðherra, sem lögð var fyrir Alþingi á síðasta ári, hafi íbúar um 40% lögbýla á landsbyggðinni ekki átt kost á háhraðatengingum. Þá hafi komið fram í umfangsmikilli skoðanakönnun meðal bænda, sem Bændasamtökin létu gera í nóvember síðastliðinn, að 48% þeirra sem eru nettengdir hafi ekki aðgang að ADSL-tengingum og búa við gamaldags innhringisamband, ISDN eða ISDN+.

„Notendur ADSL-þjónustu Símans í þéttbýli eru með um 100 sinnum hraðvirkara gagnaflutningssamband en notendur ISDN í dreifbýli sem að auki greiða um 60 sinnum hærra verð fyrir gagnaflutningsgetu en ADSL-notendur. Þessi mikli aðstöðumunur er mjög neikvæður fyrir íbúa á landsbyggðinni, sérstaklega í ljósi þess að ráðgjafarstarf BÍ byggir í meira mæli á tölvusamskiptum og miðlægri gagnavinnslu. Gott og öruggt netsamband er því ein af forsendum framfara í landbúnaði og bættum búrekstri," segir m.a. í tilkynningu Bændasamtakanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka