Keyptu föt fyrir tæpa milljón

Fréttastofa Sjónvarpsins hefur undir höndum reikninga, sem sýna að frambjóðendur Framsóknarflokksins í Reykjavík keyptu föt fyrir tæplega 1 milljón króna fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík árið 2006. Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi, sagði í Kastljósi, að flokkurinn hefði ekki haft neinn kostnað af þessum fatakaupum heldur hefði verið um að ræða styrki.

Sjónvarpið sagðist hafa undir höndum reikninga frá fataverslununum Herragarðinum og Hugo Boss. Reikningarnir voru gefnir út á tímabilinu 28. mars til 23. maí 2006, en gengið var til sveitarstjórnarkosninga 27. maí. Þeir séu allir gefnir út á Fulltrúaráð Framsóknarflokksins í Reykjavík, en flestir merktir upphafsstöfum Björns Inga Hrafnssonar.

Óskar Bergsson, annar maður á lista Framsóknarflokksins, er einnig á meðal þeirra sem hafa kvittað fyrir hluta fatanna, ásamt Rúnari Haukssyni, kosningastjóra flokksins.

Samtals hljóða reikningarnir upp á 1.290.000 krónur, en flokkurinn hefur fengið fjórðungsafslátt og því greitt aðeins 968 þúsund krónur fyrir þau. Reikningarnir sem birtir voru í sjónvarpinu sýna að flokkurinn keypti fimm jakkaföt, 26 skyrtur, 21 bindi, tíu peysur, fjögur skópör, fjögur belti, fernar gallabuxur, níu stuttermaboli, nítján sokkapör, tvo ermahnappa, frakka, leðurjakka, útijakka, langermabol, buxur og stakan jakka. 

Fram kom í fréttunum að talsmenn annarra flokka sögðu að ekki tíðkaðist að flokkarnir greiði fyrir föt frambjóðenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert