100 ár frá því fyrstu konur settust í borgarstjórn

Á fimmtudaginn verða 100 ár síðan konur settust fyrst í borgarstjórn Reykjavíkur en Oddný Sturludóttir, Samfylkingu, lagði til í borgarstjórn fyrir réttu ári að þessara tímamóta yrði minnst með veglegum hætti.

„Það verður ýmislegt gert til að fagna,“ segir Oddný. „Götur verða nefndar eftir þeim fjórum konum sem fyrst settust í bæjarstjórn og móttaka með þeim núlifandi konum sem setið hafa í bæjar- og borgarstjórn Reykjavíkur.

Þá verður á fimmtudaginn opnuð sýning í Ráðhúsinu þar sem farið verður yfir hverju konur hafa breytt í borgarpólitík,“ segir hún. „Þetta er færanleg sýning þannig að það er ekkert því til fyrirstöðu að hún verði seinna sett upp í skólum eða jafnvel bara í Kringlunni,“ segir Oddný.

Menntaráð Reykjavíkur hefur einnig samþykkt að styrkja 1-3 kennara til símenntunar í kynjafræðum frá og með næsta hausti segir hún. „Þeir verða þá eins konar jafnréttisleiðtogar í skólunum,“ segir Oddný. Kennarar í 10. bekk grunnskóla séu auk þess hvattir til að ræða við nemendur sína um jafnréttismál út frá kvikmynd sem send hefur verið skólunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert