Prentun álagningarseðla fasteignagjalda stöðvuð

Prentun álagningarseðla fasteignagjalda í Reykjavík var stöðvuð í fyrradag vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í borgarstjórn.

„Þegar ég var upplýstur um það í gær [mánudag] að það væri kominn málefnasamningur og nýr meirihluti sem hafði það að markmiði að lækka fasteignagjöldin þá ákváðum við að hinkra með útsendingu á álagningarseðlum. Þeir fara því ekki út fyrr en ljóst verður hver álagningin verður,“ segir Birgir Björn Sigurjónsson fjármálastjóri Reykjavíkurborgar.

Fasteignaskattar eru ákveðnir af borgarstjórn, en fundur er boðaður í henni á morgun, fimmtudag.

„Mér finnst líklegt að þá verði tekin ákvörðun um þetta,“ segir Birgir Björn. Hann telur þó líklegt að álagningarseðlarnir berist fólki á réttum tíma, en fyrsti gjalddagi er í febrúar. „Mér fannst eðlilegt að fá fyrst úr því skorið hvort það yrði breyting á álagningu eða ekki, annað hefði ruglað fólk,“ segir Björn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert