Heilbrigðisstofnun Suðurlands stækkar um helming

Magnús Skúlason forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, og Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra …
Magnús Skúlason forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, og Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra aðstoða Fannýju Sigurðardóttir við að klippa á borða þegar viðbyggingin var vígð í dag. Fanný fagnar 95 ára afmæli sínu í dag.

Fyrsti hluti nýrrar 5.256 fermetra viðbyggingar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi var formlega tekin í notkun í dag.

Nýbyggingin er þrjár hæðir auk kjallara.   Áætlaður heildarkostnaður við bygginguna er 1,5 milljarðar króna.

Núverandi húsnæði sjúkrahússins er um 4.500 fermetrar, þannig að með tilkomu nýju byggingarinnar mun húsnæðið tvöfaldast.

Samkvæmt upplýsingum frá Framkvæmdasýslu ríkisins kostar fyrsti áfangi viðbyggingarinnar sem nú er verið að taka í notkun um 860 milljónir króna.

Áætlaður kostnaður við næsta áfanga þar sem lokið verður við 3. hæðina er metinn á um 330 milljónir króna og lokaáfanginn, þar sem lokið verður við kjallara og 1. hæð er er metinn á um 300 milljónir króna.  Miðast upphæðirnar við bygginguna fullgerða og með öllum búnaði.

Með tilkomu nýju byggingarinnar fjölgar hjúkrunarrýmum fyrir aldraða úr 26 í 40 á Selfossi, eða um tæp 60%.  Öll herbergi á hjúkrunardeildunum eru einstaklingsherbergi.

Heilsugæslan fær nýtt og rúmbetra húsnæði á 1. hæð og endurhæfingaraðstaða verður stórbætt.  Í eldri byggingunni verður efld aðstaða fyrir rannsóknadeild, læknamóttökur og skrifstofur.

Framkvæmdir við bygginguna hófust árið 2004.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert