Ólafur treystir Gísla Marteini

Nýr meirihluti í borgarstjórn kynntur
Nýr meirihluti í borgarstjórn kynntur Árvakur/Árni Sæberg

Ólafur F. Magnússon segir alveg ljóst að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýri. Skýrt komi fram í málefnasamningi F-lista og Sjálfstæðisflokks að ekki verði tekin ákvörðun um flutning flugvallarins á yfirstandandi kjörtímabili. Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lýsti því yfir í fréttum Ríkisútvarpsins á fimmtudag að hann vildi 20.000 manna byggð í Vatnsmýrinni. Undir þetta tekur Dagur B. Eggertsson, oddviti minnihlutans.

Í Vatnsmýri til frambúðar

Ólafur segir það vera skoðun Gísla Marteins sem hann sé að lýsa. „Á meðan rannsóknir á nýju flugvallarstæði standa yfir þá verður flugvöllurinn áfram á aðalskipulagi. Það er því röng ályktun hjá oddvita minnihlutans að það verði skipulögð byggð í Vatnsmýrinni á næsta aðalskipulagi, í það minnsta ekki á flugvallarstæðinu sjálfu.“ Ólafur telur að ekki sé um betra flugvallarstæði að ræða innan borgarmarkanna og vill sjá flugvöllinn í Vatnsmýri til framtíðar. „Málefnasamningur F-lista og D-lista treystir mjög í sessi framtíðarstaðsetningu flugvallarins þar sem hann er. Ég tel líka að uppbygging í Vatnsmýri, meðal annars í tenglsum við háskóla og vísindaþorp, geti vel rúmast með flugvellinum.“

Ekki brestir í samstarfinu

Ólafur er ekki á þeirri skoðun að brestir séu í samstarfi meirihlutans í borginni þrátt fyrir að Gísli Marteinn hafi lýst þessari skoðun sinni. „Ég treysti því algjörlega að það verði staðið við málefnasamninginn. Ég hef ekki orðið var við neinar deilur um hann.“ Spurður hvort honum finnist Gísli Marteinn hafa talað óvarlega um byggð í Vatnsmýri svaraði Ólafur því að Gísli Marteinn væri bara að tala um sína framtíðarsýn, hann treysti heilindum hans.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert