Jón Ásgeir: Staðan verri en talið er

Jón Ásgeir Jóhannesson, starfandi stjórnarformaður Baugs og stjórnarformaður FL Group, segist telja að bankarnir muni á næstu tólf mánuðum fækka starfsfólki verulega. Þetta segir hann í viðtali við Markaðinn á Stöð 2 sem birtist á mánudag nk. Brot úr viðtalinu voru sýnd í þætti Markaðarins í gærkvöldi.

Jón segist telja stöðu bankakerfisins mun verri en almennt sé talað um. „Það þýðir ekkert að blekkja erlenda aðila sem sjá skuldaálag á bönkunum og skuldaálagið sem er á bönkunum í dag tekur mið af því að þeir séu hreinlega gjaldþrota,“ segir Jón og bætir því við að þetta sé nokkuð sem þurfi að hafa áhyggjur af og taka á. „Ég held að menn geti ekki stungið hausnum í sandinn og sagt að allt sé í lagi og það muni reddast. Þetta er stórhættulegt fyrir íslensku bankana,“ segir Jón.

Hann segir bankana eiga sér framtíð hér á landi verði Ísland aðili að Evrópusambandinu og því eigi það að vera langtímamarkmið ríkisstjórnarinnar að skoða aðild alvarlega. „Mér finnst svolítið skrítið að ríkisstjórnin skuli segja að málið verði ekki skoðað. Það eru gjörbreyttar aðstæður á síðustu 6-8 mánuðum og enginn getur stungið hausnum í sand og sagst ætla ekki að skoða málin.“

Jón segist telja ákvörðun Seðlabankans um að breyta stýrivöxtum ekki vera ranga. „Það eykur hættuna á því að lækkunin verði skörp sem eykur hættuna á því að krónubréfin hverfi út úr kerfinu sem eykur hættuna á því að íslenska krónan veikist mjög hratt,“ segir Jón.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert