Fagna lækkun skatta á fyrirtæki

Viðskiptaráð Íslands fagnar áformum ríkisstjórnarinnar að lækka tekjuskatt fyrirtækja úr 18% í 15%. Í sama streng tekur Heimdallur í ályktun.

Segir í tilkynningu frá Viðskiptaráði að þessi tillaga ríkisstjórnarinnar sé til þess fallin að styðja við hugmyndir sem fram hafa komið um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð.

„Jákvæð áhrif skattalækkana á samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og skattheimtur hins opinbera verða ekki dregin í efa. Lægra skatthlutfall ýtir undir örari vöxt og aukna framleiðni ásamt því að leiða frekar til þess að fyrirtæki sjái sér hag í að setjast hér að - sem hefði þau áhrif að breikka skattstofninn. Allir þessir þættir vinna gegn samdrætti í skatttekjum ríkisins.

Það er hins vegar afar mikilvægt að hið opinbera dragi markvisst saman seglin samhliða þensluhvetjandi áhrifum boðaðra aðgerða til að vega upp á móti þeim eftirspurnarþrýstingi sem auknum kaupmætti fylgir. Mikilvægt er að grunnstoðir hagkerfisins séu samstíga í aðgerðum sínum og að almenn starfsemi og sértækar aðgerðir hins opinbera stuðli að sem mestu efnahagslegu jafnvægi. Til að jákvæð skref reynist ekki feilspor þurfa því fjármál hins opinbera að vinna kerfisbundið gegn sveiflum og styrkja sameiginlega ábyrgð Seðlabankans og stjórnvalda á verðbólgumarkmiðinu," segir í tilkynningu Viðskiptaráðs.

Í tilkynningu Heimdallar kemur fram að þetta heillaspor undirstrikar eitt af grundvallargildum Sjálfstæðisflokksins, að fjármunum sé best borgið í höndum þeirra sem afla þeirra, en ekki í hirslum hins opinbera.

„Ákvörðunin gerir Ísland enn samkeppnishæfara á alþjóðavísu, og álitlegan kost fyrir erlend fyrirtæki. Félagið telur einnig að til lengri tíma muni skattalækkunin geta af sér tekjuaukningu fyrir ríkissjóð og þjóðina alla. Útlit er fyrir að tímasetning skattalækkananna sé mjög góð, þegar litið er til efnahagsástands innanlands og á alþjóðavísu í náinni framtíð.

Einnig vill Heimdallur fagna því að stimpilgjald verði afnumið hjá þeim sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign. Félagið vill samt sem áður hvetja til þess að gjaldið verði afnumið að fullu við fyrsta tækifæri. Stimpilgjald er ósanngjarn skattur sem leggst á lántakendur og getur oft numið háum fjárhæðum hjá fasteignakaupendum. Þessi niðurfelling er skref í rétta átt og mun vafalaust koma almenningi í landinu til góða," segir í tilkynningu frá Heimdalli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert