Pólverjar snúa í auknum mæli aftur heim

Pólsku afgreiðslukonunni Agötu líkar afar vel á Íslandi.
Pólsku afgreiðslukonunni Agötu líkar afar vel á Íslandi.

Á sama tíma og minni vinnu er að fá hér á landi hefur atvinnuástand í Póllandi batnað til muna með auknum hagvexti. Sökum þessa sækjast sífellt færri Pólverjar eftir því að koma til Íslands og vinna. Þetta segir Friðrik Gunnarsson, kjörræðismaður Póllands á Íslandi. „Pólland er á uppleið, þar er sterkur hagvöxtur og efnahagsástandið batnar með hverjum mánuðinum, auk þess sem launin fara almennt hækkandi. Nú um stundir vantar margt starfsfólk í Póllandi, sérstaklega í byggingarvinnu og skipasmíði,“ segir Friðrik.

Í The Times var um helgina greint frá því að síðan Pólland gekk í Evrópusambandið í ársbyrjun 2004 hafi rúmlega 274 þúsund Pólverjar fengið atvinnuleyfi í Bretlandi. Nú hafi minnkandi efnahagsumsvif í Bretlandi, það að pundið hefur veikst og óvenjumikill efnahagsbati í Póllandi dregið úr áhuga Pólverja á að vera áfram á breskum vinnumarkaði og kjósi þeir því fremur að snúa aftur heim.

Á vef pólsku hagstofunnar má sjá að vinnuhorfur hafa batnað mjög á sl. misserum. Þannig er ekki ýkja langt síðan atvinnuleysi í Póllandi mældist yfir 20% eða í árslok 2003. Í nóvember 2007 mældist atvinnuleysi hins vegar rétt rúmlega 11%.

Að sögn Drafnar Haraldsdóttur, yfirmanns EURES, stýrist fjöldi erlendra ríkisborgara á íslenskum vinnumarkaði fyrst og fremst af atvinnueftirspurn. Meðan næga vinnu sé að hafa og mikil eftirspurn eftir vinnandi höndum sé straumur erlends vinnuafls til landsins mikill. Hins vegar sé að hægja á eftirspurninni, enda mælist atvinnuleysi hérlendis aðeins um 1% á landinu öllu og 0,6% á höfuðborgarsvæðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert