Umboðsmaður Alþingis spyr um OR

Hús Orkuveitu Reykjavíkur.
Hús Orkuveitu Reykjavíkur.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, hefur sent borgarstjórn Reykjavíkur bréf þar sem óskað er eftir frekari svörum við tilteknum spurningum vegna málefna Orkuveitu Reykjavíkur og stofnunar dótturfélags þess Reykjavik Energy Invest, þar sem skýrsla stýrihópsins liggi nú fyrir. Afrit af bréfinu var sent bæjarstjórn Akraness og sveitarstjórn Borgarbyggðar og þeim gefinn kostur á að senda frekari, önnur eða fyllri svör við spurningum frá 9. október sl. eigi síðar en 14. mars.

Í fyrsta lagi óskar umboðsmaður Alþingis eftir upplýsingum um hver fól borgarlögmanni að svara erindi sínu til borgarstjórnar 9. október sl. og hvort borgarráð/borgarstjórn hafi tekið þátt í þeirri ákvörðun.

Í svari borgarlögmanns frá 30. október er tekið fram að stöðuumboð borgarstjóra til að taka ákvarðanir fyrir hönd borgarinnar á eigendafundum OR sé ekki talið vera án takmarkana. Umboðsmaður spyr um hvaða takmarkanir sé að ræða og hvort þær hafi haft þýðingu við ákvarðanir sem teknar voru á eigendafundi OR 3. október sl.

Í þriðja lagi spyr Tryggvi Gunnarsson hvort borgarstjóra hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst þegar hann kom til eigendafundar OR 3. október „að þá væri ekki meirihluti innan borgarstjórnar fyrir því að hann samþykkti fyrir hönd Reykjavíkurborgar þær tillögur sem bera átti upp á fundinum“.

Hafi kaup starfsmanna og stjórnarmanna eða félaga í eigu þeirra á hlutum í félögum sem OR hafi stofnað eða átt aðild að, eins og t.d. LínuNets hf. og Enex hf., verið samþykkt óskar umboðsmaður eftir gögnum um þau.

Þá óskar umboðsmaður eftir upplýsingum um hvort einhverjar breytingar hafi verið ákveðnar eða séu fyrirhugaðar á samþykktum borgarinnar eða reglum sem fylgt er við stjórnun hennar eða OR og lúta að fyrirspurnum í bréfinu 9. október.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert