Holskefla lögsókna vegna bloggmmæla?

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í bloggmálinu svonefnda, þar sem netverja var gert að greiða öðrum miskabætur, fjarlægja ummæli af vefsvæði sínu og birta dóminn þar, hefur vakið upp umræður um málfrelsi á netinu.

Sumir telja jafnvel, verði dómurinn staðfestur í Hæstarétti eða honum ekki áfrýjað, að nú hafi opnast fyrir möguleikann á lögsóknum gegn nafnlausum netverjum sem viðhafa ærumeiðandi ummæli og þeim sem stýra eða hýsa netsíðurnar þar sem ummælin birtast.

Þeirra á meðal er dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, sem segir á vefsíðu sinni að láta ætti reyna á ábyrgð þeirra sem halda úti síðum þar sem nafnleysingjar vega að samborgurum sínum með dónaskap og óhróðri. Margir spyrja sig hvort von sé á fjölda lögsókna af þessu tagi.

Núgildandi lög um prentrétt eru að grunni til frá árinu 1956 og gera því ekki ráð fyrir tilkomu netsins. Fræðimenn hafa lengi óskað eftir heildarendurskoðun á ábyrgðarreglum í fjölmiðlarétti en lítið hefur þokast. Í ellefu ára gömlu riti Páls Sigurðssonar prófessors, Fjölmiðlarétti, er óskað eftir slíkri endurskoðun og sérstaklega talað um þarfir hinnar nýju fjölmiðlunar.

Eiríkur Jónsson, lektor við lagadeild HÍ, segir bagalegt að ábyrgðarreglur hafi ekki verið endurskoðaðar með tilliti til nýrra miðla eins og bloggs, sem liggi nú á mjög gráu svæði hvað þetta varðar. Ábyrgðarröð er tilgreind í útvarpslögum og prentlögum um ábyrgð útgefenda og ritstjóra þegar höfundur er ekki tilgreindur. Aðspurður útilokar Eiríkur ekki að fyrst lögjafnað var frá prentlögum í bloggdómnum, sé lögjöfnun frá ábyrgðarreglum þeirra einnig möguleg um bloggsíður.

„Það verður þó að segjast að með því væri nokkuð langt seilst,“ segir hann. Hins vegar getur verið að lögsókn byggist ekki á kröfum um refsikennd úrræði, heldur skaðabætur. Þá gæti krafa byggst á skaðabótareglum þar sem skilyrðið er að saknæm háttsemi hafi átt sér stað. „Ekki er útilokað að slíkum reglum yrði beitt um vefstjóra eða umsjónaraðila sem ekki fjarlægja svívirðileg, nafnlaus ummæli, ef það yrði metið saknæmt athæfi af hans hálfu,“ segir Eiríkur.

Til þess að aðili verði látinn sæta ábyrgð verði að telja að hann þurfi að hafa einhverja möguleika til að fjarlægja efnið eða hafa áhrif á það. Þeir sem sinni einungis vefhýsingu séu mjög ólíklegir til að sæta ábyrgð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert